Karellen

Veikindi

Ekki er leyfilegt að koma með veikt barn í leikskólann. Barn sem hefur verið veikt þarf að vera hitalaust heima í a.m.k einn sólarhring áður en það mætir í leikskólann. Þegar barn kemur aftur í leikskólann eftir veikindi á það að vera tilbúið að taka þátt í öllu skólastarfi úti sem inni.

Oft er það svo að foreldrar vilja að barnið sé inni einn dag eftir veikindi. Í slíkum tilfellum ættu foreldrar að setja sig í samband við leikskólann áður en komið er með barnið og athuga hvort hægt er að verða við óskum þeirra. Aðstæður s.s. mannekla eða skipulag dagsins geta haft áhrif þar á.

Foreldrar eru beðnir um að virða þessa reglu og óska ekki eftir inniveru fyrir barnið sitt nema í undantekningatilvikum, þegar um er að ræða langvarandi eða síendurtekin veikindi. Fái barnið smitandi sjúkdóm verður það að dvelja heima þar til smithætta er liðin hjá. Þetta er nauðsynleg ráðstöfun til að forðast útbreiðslu sjúkdóma í leikskólanum og sjálfsögð tillitssemi gagnvart öðrum börnum.

Hér getið þið séð töflu frá HSu sem inniheldur yfirlit um helstu smitsjúkdóma barna.

Eru foreldrar/forráðamenn vinsamlegast beðnir að virða þessa reglu.

Vinsamlegast látið vita ef barnið er fjarverandi vegna veikinda eða annarra ástæðna á Karellen eða í síma leikskólans 488-2280


Lyfjagjafir

Ef barnið þarf á lyfjum að halda, ber að haga lyfjagjöf þannig að þau séu gefin heima en ekki í leikskólanum. Undantekning á þessu eru astmalyf og insúlín. Einnig er þörfin metin í hverju tilfelli fyrir sig.


Slys

Umhverfi í leikskólanum er eins öruggt og kostur er á en þrátt fyrir það geta slys og óhöpp orðið þar sem stór hópur barna er saman kominn. Sé um meiriháttar meiðsli að ræða er haft samband við foreldra og þau sjá um að fara með barnið á heilsugæsluna, ef ekki næst í þau fer starfsmaður leikskólans. Leikskólinn greiðir fyrstu heimsókn til læknis.

Ef grunur leikur á beinbroti eða barn verður fyrir alvarlegum höfuðáverka er hringt í 112 og foreldra.


Dvalarsamningur

Þegar barn byrjar í leikskólanum er gerður dvalarsamningur, sem foreldrum/forráðamönnum ber að virða. Þótt barnið sé fjarverandi greiða foreldrar fyrir leikskólaplássið nema um annað sé samið. Einn mánuður á ári er gjaldlaus, það miðast við 4 vikna samfellt sumarleyfi barnsins.
Vinsamlegast virðið vistunartíma barnsins.

Foreldrum er bent á að kynna sér reglur er varðar leikskólagjöld á heimasíðu Vestmannaeyjabæjar.


Breyting á dvalartíma

Ef foreldrar óska eftir breytingu á dvalartíma, sækja þeir um það á íbúagáttinni.
Sjá nánar hér.


Niðurfelling á fæðisgjaldi

Hægt er að sækja um niðurfellingu á fæðisgjaldi vegna fjarveru barns. Það þarf að berast leikskólanum með a.m.k. viku fyrirvara og þarf tímabilið að vara í 4 vikur eða lengur.


Uppsögn á leikskólagöngu

Uppsagnarfrestur er einn mánuður. Fylla þarf út þar til gert eyðublað sem hægt er að nálgast hjá deildar- eða leikskólastjóra. Uppsagnarfrestur vegna vangreiddra leikskólagjalda er einn mánuður.


Sérfræðiþjónusta

Samkvæmt lögum og reglugerð um starfsemi leikskóla er sveitarfélögum skylt að sjá leikskólum fyrir ráðgjafar- og sérfræðiþjónustu. Leikskólar Vestmannaeyjabæjar hafa aðgang að þroskaþjálfa, talmeina- og sálfræðingi.

Á Kirkjugerði er unnið eftir samræmdum verkeferlum leikskóla í Vestmannaeyjum ef áhyggjur af þroska hegðun eða líðan barns vaknar á leikskólanum.
© 2016 - 2024 Karellen